1. Gildissvið
Eftirfarandi skilmálar gilda vegna leigu á geymslum hjá GTL ehf.
Leigutaki skuldbindur sig til að hlíta skilmálum þessum og þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í leigusamningi í hverju tilliti.
Breytingar á skilmálum þessum eru kynntar með skilaboðum á netfang leigutaka og á vefsíðu leigusala.
2. Leigutími
Leigutími geymslu er að lágmarki einn mánuður.
Tilkynna skal uppsögn á leigusamningi með tölvupósti á netfangið info@geymslurtilleigu.is. Uppsagnarfrestur er einn mánuður og hefst hann fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send, í samræmi við grein 13 (Uppsögn leigusamnings).
3. Ástand geymslunnar
Leigutaki skal skoða geymsluna eins fljótt og kostur er. Berist leigusala ekki athugasemdir frá leigutaka um ástand geyslunnar innan sólarhrings frá upphafi leigutíma skal litið svo á að leigutaki sætti sig við ástand hennar, lögun og stærð að öllu leyti.
Að leigutíma loknum ber leigutaka að skila geymslunni í sama ástandi og hann tók við henni og skal hann senda staðfestingu á netfang leigusala þegar geymslan hefur verið tæmd.
4. Viðhald á geymslunni
Leigutaki skal bæta tjón á geymslunni sem verður af völdum hans sjálfs eða annarra á hans vegum sem hann hefur leyft afnot af geymslunni.
5. Aðgangur að geymslu
Leigutaki hefur aðgang að geymslunni 24 tíma sólarhrings alla daga ársins.
Leigutaki fær úthlutaðan sérstakan öryggiskóða sem er eingöngu merktur honum til að komast inní húsnæðið. Leigutaki skal halda upplýsingum um öryggiskóðann leyndum og er hann ábyrgur fyrir því að óviðkomandi aðili komist ekki yfir kóðann. Verði leigutaki þess áskynja að óviðkomandi aðili hafi fengið vitneskju um öryggiskóða hans skal hann tafarlaust tilkynna slíkt til leigusala.
Leigutaka er skylt að hleypa leigusala inn í geymsluna þegar hann þess óskar sé þess þörf vegna viðhalds á húsinu. Verði leigutaki ekki við beiðni leigusala eða ekki tekst að ná í leigutaka er leigusala heimilt að opna (brjóta upp lás) og ganga um geymsluna. Sama á við gruni leigusala að óheimilir hlutir séu geymdir í geymslunni, sbr. grein 7 (Umgengni og notkun), eða ef hann telur að munir eða húsnæðið liggi undir skemmdum.
Leigusali skal tilkynna leigutaka eins fljótt og kostur er ef hann hefur þurft að opna geymsluna vegna ofangreinds.
6. Afnot af geymslunni
Óheimilt er að nota geymsluna á annan hátt en um er samið í leigusamningi þessum, sjá nánar grein 7 (Umgengni og notkun). Leigutaka er óheimilt að nota sameiginlegt rými eða lóð leigusala til annars en að komast til og frá geymslunni. Leigutaki má hvorki nota geymsluna sem lögheimili né starfsstöð.
Leigutaka er óheimilt að framkvæma breytingar eða endurbætur á geymslunni eða búnaði hennar, nema að fengnu samþykki leigusala og gerðu samkomulagi um skiptingu kostnaðar og hvernig með skuli fara að leigutíma loknum.
Leigutaki skal fara eftir öllum þeim umgengisreglum sem leigusali setur. Vanefni leigutaki samning þennan getur leigusali meinað leigutaka aðgang að geymslunni, sbr. grein 11 (Vanefndir leigutaka og úrræði leigusala).
7. Umgengni og notkun
Geymsluna skal eingöngu nota til geymslu á munum og/eða gagna. Leigutaka er óheimilt að geyma lifandi verur, hættuleg eða eldfim efni (t.d. sýru, eldsneyti, sprengiefni), efni sem gefa frá sér sterka lykt, efni sem rotna, efni sem þarfnast kælingar, frosts eða vatns, vélknúin ökutæki, gaskúta eða önnur efni sem eru til þess fallin að skemma geymsluna eða sameiginlegt rými eða skapa hættu á skemmdum á húsnæðinu eða truflun.
Þá skal leigutaki framfylgja reglum brunamálayfirvalda.
Leigutaka er skylt að ganga vel og snyrtilega um geymsluna, sameiginlegt rými og lóð leigusala og gæta settra reglna og góðra venja um hreinlæti. Leigutaki ber ábyrgð á öllum skemmdum sem hann veldur á geymslunni, svo og skemmdum sem hann veldur á húsnæði eða munum annarra utan eigin geymslu. Leigutaki skal tilkynna leigusala án tafar um þau atriði sem þarfnast lagfræðingar eða viðhalds sem og skemmdir sem orðið hafa á geymslunni, sameiginlegu rými eða lóð leigusala af hans völdum eða annarra sem hann ber ábyrgð á.
8. Fjárhæð og greiðsla leigu
Leigu skal greiða mánaðarlega.
Leiga skal greidd með kreditkorti sem skal vera skráð á leigutaka. Í upphafi leigutíma skal greiða leigu fyrir þann tíma sem eftir er að viðkomandi mánuði auk eins mánaðar leigu fyrirfram. Mánaðarleg boðgreiðsla er svo gjaldfærð af kreditkortinu þar til leigutíma lýkur og geymslu hefur verið skilað.
Leigusali getur hvenær sem er krafið leigutaka um greiðslutryggingu telji hann þörf á því. Geti leigutaki ekki lagt fram greiðslutryggingu telst hann hafa sagt upp leigusamningi sínum. Skal leigutaki þá rýma geymsluna innan mánaðar.
9. Breyting á fjárhæð leigu
Leigan skal taka mið af gjaldskrá GTL ehf., sem er endurskoðuð reglulega.
Leigusala er heimilt að breyta leiguverði einhliða við uppfærlsu verðskrár.Ef leigutaki hefur lagt fram greiðslutryggingu, ofgreitt leigu eða ef hann á kröfu á leigusala vegna lúkningar leigusamnings, þá mun leigusali endurgreiða leigutaka þá fjármuni innan 30 daga frá síðasta leigudegi. Leigutaki mun endurgreiða með bakfærslu á kreditkort eða með því að leggja inn á bankareikning leigutaka. Leigutaki skal senda skriflega tilkynningu á netfang leigusala með bankaupplýsingar ef leigugreiðslur hafa ekki verið greiddar með kreditkorti.
10. Kostnaður leigutaka
Standi leigutaki ekki skil á greiðslu leigunnar á gjalddaga ber honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Leigutaka ber jafnframt að greiða lögfræðilegan kostnað vegna innheimtu leigunnar, réttargjöld, lögmannsþóknanir og kostnað vegna málsóknar, sem og annan kostnað er leigusala ber að greiða.
11. Vanefndir leigutaka og úrræði leigusala
Ef leigutaki stendur ekki skil á leigugreiðslum eða vanefnir leigusamning eða skilmála hans að öðru leyti er leigusala heimilt einhliða, fyrirvaralaust og án aðvörunar að:
1) banna leigutaka að komast í geymsluna og getur hann framfylgt því banni með því að skipta um læsingar á geymslunni og loka aðgangskóða
2) halda eftir fyrirframgreiddri leigu og /eða greiðslutryggingu og nota andvirði hennar til greiðslu vanefnda.
3) Ef leigutaki stendur ekki skil á leigugreiðslum eða vanefnir leigusamning eða skilmála hans að öðru leyti er leigusala heimilt einhliða að:
a) að rýma geymsluna og leggja hald á þá muni sem í geymslunni eru til tryggingar á leigugreiðslum og/eða kostnaði, sbr. nánar grein 14 (Rýming geymslu, haldlagning og förgun).
b) að selja og/eða farga þá muni sem lagt er hald á samkvæmt ofangreindum a)lið, sbr. nánar grein 14 (Rýming geymslu, haldlagning og förgun).
12. Riftunarheimild leigusala
Ef greiðslukort það sem gefið er upp til leigugreiðslu samkvæmt samningi reynist ógilt, lokað, tilheyri ekki uppgefnu nafni korthafa á samningi eða ef korthafi hafnar greiðslu getur leigusali rifta leigusamningi tafarlaust.
Enn fremur getur leigusali rift leigusamning tafarlaust ef hann telur að leigutaki hafi vanefnt leigusamninginn eða skilmála þessa.
13. Uppsögn leigusamnings
Uppsagnarfrestur leigusamnings er að lágmarki einn mánuður. Mánaðar uppsagnarfrestur telst hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send. Uppsögn skal tilkynna leigusala skriflega með sannanlegum hætti, með tölvupósti á netfangið info@geymslurtilleigu.is. Í tilkynningu um uppsögn skal tilgreina númer geymslu, öryggiskóða og skiladag geymslu og skal hún berast frá sama tölvupóstfangi og skráð var við pöntun eða bókun á geymslu.
14. Rýming geymslu, haldlagning og förgun
Ef leigutaki vanrækir að uppfylla einhverja af skyldum sínum samkvæmt leigusamningi eða skilmálum þessum er leigusala heimilt með einhliða aðgerðum og án atbeina sýslumanns að rýma geymsluna og farga þeim munum sem eru í geymslunni, eða leggja hald á þá til tryggingar á leigugreiðslum og/eða kostnaði sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi. Leigutaki ber ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rýmingu, förgun og haldlagningu. Leggi leigusali hald á muni sem eru í geymslunni samkvæmt þessu er honum heimilt að selja þá án frekari fyrirvara. Andvirði sölunnar rennur upp í skuld leigutaka. Leigusali ber enga ábyrgð á fjárhagslegum skaða leigutaka vegna rýmingar, förgunar, haldlagningar og sölu á munum samkvæmt þessu.
Leigusali skal tilkynna leigutaka skriflega um fyrirætlan um rýmingu, förgun og eða haldlagningu með minnst tveggja vikna fyrirvara. Skal tilkynningin send á netfang leigutaka eða heimilisfang hans sem hann hefur gefið upp við bókun á geymslu.
15. Fyrirvari um nýtingu réttar samkvæmt samningnum
Þó leigusali kjósi að hagnýta sér ekki strax, að fullu eða að hluta, þann rétt sem hann hefur samkvæmt leigusamningi og/eða skilmálum þessum, takmarkar það ekki heimild hans eða möguleika til að hagnýta sér þann rétt síðar.
16. Skil á geymslu
1. Leigutaki getur seinkað því að skila geymslu .
Hafi leigutaki sagt upp leigusamningi þá getur hann ákveðið að seinka síðasta leigudegi sem kom fram í uppsögninni. Slíka tilkynningu skal senda á netfang leigusala og framlengist þá leigusamningurinn í heilum mánuðum. Þessi réttur um framlengingu leigusamnings er háður því að leigutaki hafi efnt önnur ákvæði samningsins.
2. Leigutaki getur ógilt uppsögn og leigt geymslu áfram
Hafi leigutaki sagt upp leigusamningi en ekki skilað geymslu, þá getur leigutaki tilkynnt um ógildingu uppsagnar á netfang leigusala og er leigusamningur þá áfram í fullu gild.
3. Ef geymsla er ekki tæmd á síðast a skiladegi þá ógildist uppsögn
Uppsögn fellur úr gildi ef leigutaki hefur ekki tæmt og skilað af sér geymslu á síðasta áætlaða leigudegi skv. uppsögninni. Leigusamningurinn verður þá áfram í gildi og þarf leigutaki að tilkynna aftur skriflega uppsögn í samræmi við ákvæði um uppsagnarfrest að ofan.
17. Framsal og framleiga
Leigutaka er óheimilt að framselja leigurétt sinn eða framleigja geymsluna í heild eða að hluta án samþykkis leigusala.
Leigusala er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur til annarra en tilkynna skal leigutaka um slíkt framsal.
18. Eftirlitsmyndavélar
Eftirlitsmyndavélar eru inni í sameiginlegu rými og fyrir utan húsnæðið. Leigutaki er meðvitaður og samþykkur að heimsóknir í húsnæðið eru myndaðar og vistaðar stafrænt.
19. Tilkynningar
Allar fyrirspurnir og tilkynningar til leigusala skal senda á netfangið: info@geymslurtilleigu.is
Leigusali skal senda tilkynningar á netfang leigutaka sem hann gefur upp við bókun á geymslu. Sending tilkynningar með tölvupósti á netfang sem leigutaki hefur gefið upp við bókun á geymslu telst fullnægjandi, þótt netfangið sé ekki virkt, enda hafi leigusali þrívegis reynt að senda tilkynningu með tölvupósti á netfangið
Leigusali getur jafnframt ákveðið að senda tilkynningar á lögheimili leigutaka ef það er annað en heimilisfang það sem gefið er upp við bókun á geymslu. Kvittun fyrir móttöku tilkynningar á heimilisfangi/lögheimili skal teljast fullnægjandi sönnun fyrir móttöku hennar þótt annar en leigutaki kvitti fyrir móttökuna.
Það telst einnig fullnægjandi sönnun fyrir sendingu tilkynningar leigusala ef tilkynning um að ábyrgðarsending bíði leigutaka á pósthúsi er borin út á fyrrgreint heimilisfang, eða ef þriðji aðili, svo sem stefnuvottur eða hraðsendingarþjónusta, vottar að tilkynning hafi verið borin út á heimilisfangið. Efni tilkynningar sem leigusali hefur sent með ofangreindum hætti skal teljast vera það sem leigusali tiltekur, nema leigutaki geti sýnt fram á annað með framvísun viðkomandi tilkynningar.
Leigutaka er skylt að tilkynna leigusala skriflega og með sannanlegum hætti um allar breytingar á upplýsingum um leigutaka sem fram koma í bókun á geymslu.
20. Trúnaður
Leigusali skal gæta fyllsta trúnaðar um leigutaka og þá muni sem hann geymir í geymslunni nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.
Leigutaki skal gæta trúnaðar um það sem hann verður áskynja við heimsóknir í geymsluna og varða starfsemi og öryggisgæslu í húsnæðinu eða aðra leigutaka og þá muni sem þeir geyma í húsnæðinu. Leigutaki skal sjá til þess að þeir aðilar sem hann veitir aðgang að geymslunni á sínum vegum gæti einnig sama trúnaðar.
Leigusala skal heimilt að veita lögregluyfirvöldum upplýsingar um leigutaka og aðgang að geymslu hans, ef beiðni berst frá lögregluyfirvöldum, án undangenginnar tilkynningar til leigutaka.
21. Ábyrgð leigusala
Leigusali ber ekki ábyrgð á þeim munum sem eru settir í geymslu. Leigusali bendir því leigutaka á að skynsamlegt getur verið að tryggja munina með því að tilkynna tryggingarfélagi sínu að innbú eða eigur hans séu staðsettar í geymslunni.
Leigusala ber ekki ábyrgð á tjóni sem leigutaki verður fyrir og rekja má til bilunar eða galla á búnaði, þ.m.t. á brunaviðvörunarkerfi, brunavörnum, þjófavarnarkerfi, vatnslekaviðvörunarkerfi, öryggismyndavélum, hreyfiskynjurum, meindýravörnum, vatnleiðslum eða rafmagni eða fyrrnefnt virkar ekki í samræmi við væntingar leigutaka. Þá ber leigusali ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til atvika sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure).
22. Persónuverndarstefna
Viðskiptavinir GTL ehf. (GTL) geta treyst því að að GTL fylgi lögum og reglum í hvívetna í starfsemi sinni. Það á ekki síst við um varðveislu persónuupplýsinga. GTL leggur ríka áherslu á að persónuupplýsingar viðskiptavina GTL séu varðveittar eftir því sem best verður á kosið og vinnsla þeirra af hálfu GTL, hvort heldur sem ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila, fari aðeins fram í lögmætum tilgangi eða samkvæmt upplýstu samþykki.
Í persónuverndarstefnu GTL er viðskiptavinum GTL kynnt hvernig GTL safnar, geymir og vinnur með persónuupplýsingar viðskiptavina sinna.
Allar fyrirspurnir um persónuvernd skulu berast á netfangið personuvernd@geymslurtilleigu.is
Persónuverndarstefna GTL
I. Hvaða persónuupplýsingar vinnur GTL og í hvaða tilgangi
Það er nauðsynlegt fyrir GTL að afla persónuupplýsinga um viðskiptavini sína til að geta veitt þeim þá þjónustu sem þeir óska eftir. Öflun GTL á persónuupplýsingum takmarkast við nauðsynlegar upplýsingar og er ekki annarra upplýsinga aflað en þörf er á. Þær persónuupplýsingar sem GTL verður að afla frá viðskiptavinum sínum eru nafn, kennitala, heimilisfang, netfang, símanúmer og greiðsluupplýsingar sem og upplýsingar um óskir eða þarfir þeirra vegna þjónustu sem GTL veitir. Öflun persónuupplýsinga getur ýmis farið fram er viðskiptavinur óskar eftir geymslu í gegnum heimasíðu GTL, í síma eða eftir öðrum samskiptaleiðum. GTL tekur eingöngu við persónuupplýsingum beint frá viðskiptavini eða frá þriðja aðila sem hefur heimild til að afhenda GTL slíkar upplýsingar. Dæmi um slíka aðila eru Þjóðskrá Íslands og Creditinfo.
Öflun og vinnsla persónuupplýsinga af hálfu GTL fer fram á grundvelli samþykkis viðskiptavinar eða vegna lögmætra hagsmuna GTL. Persónuupplýsingarnar eru eingöngu notaðar til þess að geta veitt viðskiptavinum GTL umbeðna þjónustu eða í tengslum við innheimtu fyrir þjónustuna. Persónuupplýsingar viðskiptavina GTL eru aldrei notaðar til markaðsrannsókna.
Öll gögn eru vistuð á kerfum GTL eða hjá viðurkenndum rekstraraðilum.
II. Veiting upplýsinga til þriðja aðila
Það getur verið nauðsynlegt fyrir GTL að afhenda þriðja aðila persónuupplýsingar viðskiptavina sinna, t.d. til innheimtuaðila sem annast innheimtu vangoldinna gjalda fyrir þjónustu GTL. Þá getur verið að GTL tilkynni vanskil af hálfu viðskiptavina GTL til fyrirtækja eins og Creditinfo. Loks getur GTL verið í vissum tilfellum verið skylt að veita opinberum aðilum persónuupplýsingar viðskiptavina GTL, s.s. lögregluyfirvöldum.
GTL selur ekki persónuupplýsingar viðskiptavina sinna til þriðju aðila.
III. Rafræn vöktun
Húsnæði GTL er vaktað með eftirlitsmyndavélum. Öll notkun eftirlitsmyndavéla er í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga og reglna settra samkvæmt þeim.
IIII. Trúnaður
Starfsmenn GTL undirrita trúnaðaryfirlýsingu vegna starfa sinna hjá GTL og eru bundnir trúnaði um vitneskju sína og störf hjá GTL. Brot á trúnaði varðar brottrekstri og getur slíkt brot verið tilkynnt til lögreglu.
V. Varðveislutími persónuupplýsinga
Persónuupplýsingar eru varðveittar á meðan viðskiptasamband GTL og viðskiptavinar GTL er í gildi og eins lengi og lögmætir hagsmunir GTL krefjast þess. GTL leitast við að varðveita ekki persónuupplýsingar lengur en nauðsynlegt er, nema lög krefjist þess að slíkar upplýsingar séu varðveittar í lengri tíma.
VI. Réttindi viðskiptavina GTL
Viðskiptavinir GTL hafa ávallt heimild til að fá aðgang að þeim persónuupplýsingum sem GTL hefur um þá. Viðskiptavinir geta jafnframt óskað eftir leiðréttingum á þeim, breytingum eða eyðingu gagna eftir því sem við á. Nauðsynlegt er fyrir viðskiptavini GTL að sanna á sér deili áður þegar þeir óska eftir að neyta réttinda sinna til að tryggja að réttur aðili leggi fram beiðnina.
Allar fyrirspurnir um persónuvernd skulu berast á netfangið personuvernd@geymslurtilleigu.is
Viðskiptavinir GTL geta sent erindi til Persónuverndar ef þeir eru ekki sáttir við vinnslu GTL á persónuupplýsingum.
VII. Gildissvið
Persónuverndarstefna GTL gildir um allar persónuupplýsingar sem GTL vinnur, hvort sem þær varða viðskiptavini eða starfsmenn GTL eða aðra aðila sem GTL öðlast persónuupplýsingar um.
GTL fylgist með að persónuverndarstefnan sé í samræmi við gildandi lög og reglur og tryggir að vinnsla persónuupplýsinga hjá GTL uppfylli þær kröfur sem gerðar eru hverju sinni. Persónuverndarstefnunni getur því verið breytt hvenær sem er, án fyrirvara.
Skilmálar þessir gilda frá 19. mars 2019.